Erlend endurlán í nóvember voru um 4 milljörðum króna meiri en í fyrri mánuði, leiðrétt með tilliti til gengisbreytinga. Samkvæmt samantekt greiningardeildar KB banka hafa síðastliðna 12 mánuði erlend endurlán vaxið um tæpalega 144 milljarða króna og skapað gjaldeyrisinnflæði sem því nemur. Erlend endurlán eru lán sem innlendir aðilar taka með milligöngu íslenskra lánastofnana.

Í Hálffimm fréttum KB banka kemur fram að lánin eru síðan tengd gengi krónunnar (með mismunandi gjaldmiðlavægi) og hækka eða lækka eftir hreyfingum þess. Þetta lánaflæði er stærsti einstaki þátturinn í gjaldeyrisstreymi til landsins og skiptir því mjög miklu máli fyrir skammtímagengi krónunnar. Ljóst er að til lengri tíma litið mun langur hali vaxtagreiðslna og afborgana setja kerfisbundinn veikingarþrýsting á gengi krónunnar, auk þess að gera þjóðarbúskapinn næmari fyrir erlendum stýrivaxtahækkunum.