Rússneski jarðgasframleiðandinn Gazprom ráðgerir tekjur upp á 65 milljarða dollara á yfirstandandi ári. Jarðgasverð á Evrópusambandssvæðinu hefur hækkað mikið að undanförnu og nálgast sögulega hátt verð. Gazprom reiknar með að hverjir 1000 rúmlítrar af jarðgasi muni kosta 500 dollara við lok ársins 2008. BBC segir frá þessu í dag.

Gazprom, sem er í eigu rússneska ríkisins, er stærsti framleiðandi jarðgass í heiminum. Fyrirtækið fullnægir um fjórðungi af gasþörf allrar Evrópu.

Forstjóri Gazprom, Alexander Medvedev, segist búast við því að gasverð verði um 100 dollurum hærri í lok 2008 en við lok 2007. Hann viðurkennir þó að verðin munu að öllum líkindum lækka innan skamms. Jarðgasverð helst jafnan í hendur við olíuverð. Þó getur verið sex til níu mánaða töf á fylgninni.

Gazprom stefnir að því að auka markaðshlutdeild sína í Evrópu úr 25% í 33% fyrir árið 2015.