Boeing 787 Dreamliner breiðþotan var frumsýnd í Seattle um helgina að viðstöddum fulltrúum íslenskra fjölmiðla. Í frétt frá Icelandair Group kemur fram að félagið sér mikil tækifæri felast í samningum sem félagið hefur gert við Boeing flugvélaverksmiðjurnar um kaup á fjórum Dreamliner breiðþotum.

Í ársbyrjun 2005 samdi félagið um kaup á tveimur þotum þessarar gerðar og um kauprétt á fimm til viðbótar. Á síðasta ári gekk Icelandair Group síðan frá kaupsamningum á tveimur þeirra. Vélarnar verða afhentar vorið 2010 og vorið 2012, tvær eftir þrjú ár og tvær eftir fimm ár.

"Við vorum fyrsta áætlunarflugfélagið í Evrópu sem samdi við Boeing um kaup á B- 787 flugvélinni. Á þeim tíma höfðu aðeins 15 flugfélög pantað hana, þannig að við komum mjög snemma inn í viðskipti með þessa flugvél. Við höfum síðan fylgst með því að þessi byltingarkennda flugvél er orðin ein sú vinsælasta í flugsögunni, miðað við fyrirframpantanir, og þessi geysilega eftirspurn skapar fjölmörg tækifæri fyrir okkur. Icelandair Group stendur í fjölbreytilegum rekstri, því að auk áætlunarflugs Icelandair stunda dótturfélög okkar leiguflug víða um heim auk þess sem alþjóðleg flugvélaviðskipti eru mjög sterkur hluti af kjarnastarfsemi okkar. Á öllum þessum sviðum sjáum við fjölmörg tækifæri í tengslum við Boeing 787 Dreamliner. Stefnt er að því, að þessi flugvélategund verði notuð í leiðarkerfi Icelandair á næstu misserum, en á þessari stundu hefur ekki verið tekin endanleg ákvörðun um hvenær nákvæmlega það verður. Við erum einnig að sjá þróast mjög spennandi tækifæri í tengslum við flugvélaviðskipti, því vélin hefur hækkað mjög í verði frá því að við gengum frá kaupsamningum", segir Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair Group, í tilkynningu vegna frumsýningarinnar.

?Með kaupunum er hugsað til framtíðar. Í dag notum við Boeing 757 flugvélar í áætlunarflugi Icelandair og hentar sú flugvél gríðalega vel í núverandi leiðakerfi félagsins. Boeing 787 Dreamliner er byltingarkennd nýjung í flugheiminum, flugvélagerð sem er að verða ein eftirsóttasta flugvélin í sögunni. Hún er bæði stærri og langfleygari en núverandi flugvélafloti félagsins. Í núverandi leiðakerfi okkar getum við flogið til Íslands frá markaðssvæði í Evrópu og Bandaríkjunum, sem í allt telur um 700 milljónir manna, en Boeing 787 flugvélin getur flogið beint til Íslands frá nánast allri heimsbyggðinni. Það má því segja, að markaðssvæði félagsins verði um 6 milljarða manna með tilkomu þessarar flugvélar. Með því að tryggja okkur flugvélar af þessari gerð, höfum við því opnað ótal möguleika í framtíðarþróun félagsins.?

Hönnun og framleiðsla Boeing 787 Dreamliner flugvélarinnar byggir á nýrri tækni. Hún mun nota um 20% minna eldsneyti en flugvélar dagsins í dag, býður upp á 45% meira fraktrými, en munurinn á aðbúnaði farþega mun eflaust vekja mesta athygli. Innréttingar verða töluvert frábrugðnar því sem nú tíðkast, rakastig um borð verður hærra og líkara því sem er á jörðu niðri, sæti og gangar verða breiðari, gluggar um tvöfalt stærri en nú tíðkast og allur tækni- og afþreyingarbúnaður um borð verður fyrsta flokks.

Flugvélar félaga innan Icelandair Group eru nú um 65 talsins.