Gríðarlega mikil umframeftirspurn varð í hlutafjárútboði Avion Group sem lauk á föstudaginn síðastliðinn. Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að fagfjárfestar óskuðu eftir að kaupa hluti í félaginu fyrir ríflega 100 milljarða króna sem er sextánfalt meira en var í boði.

Í ljósi hinnar miklu umframeftirspurnar var ákveðið að selja nýja hluti að andvirði 10 milljarða króna í stað sex á genginu 38,3. Það gengi eru efri mörk þess verðbils sem kom fram í útboðslýsingu. Meðal kaupenda voru allir helstu lífeyrissjóðir landsins, auk verðbréfasjóða og fjárfestingafélaga.

Magnús Þorteinsson stjórnarformaður fyrirtækisins sagði sérstaklega ánægjulegt að sjá hversu breiður hópur fjárfesta tók þátt í útboðinu. "Þessi gríðarlegi áhugi eflir félagið og starfsfólk þess í áframhaldandi sókn um allan heim," sagði Magnús.

Í Vegvísi Landsbankans kemur fram að sextánföld umframeftirspurn er ekki einsdæmi í sögunni því umframeftirspurn eftir bréfum í vefleitarfyrirtækinu Google síðastliðið sumar var álíka mikið.

Heildarfjöldi hluta í Avion Group hf. fyrir útboðið eru 1.532.502.529. Boðnir voru út 261.096.606 nýir hlutir og verður heildarfjöldi hluta eftir útboðið því 1.793.599.135. Miðað við útboðsgengi 38,3 er markaðsvirði félagsins tæpir 70 milljarðar króna.