Undanfarin misseri hefur umræða um hátt verð á kjarnfóðri hérlendis verið töluvert hávær meðal kúabænda og jafnframt bæði svína- og alífuglabænda, en sem dæmi má nefna að kjarnfóður fyrir mjólkurkýr kostar að jafnaði meira en 30 kr. pr. kg. eins og vakin er athygli á á vef Landssambands kúabænda. Vegna þessa hafa kúabændur aflað upplýsinga um verð á kjarnfóðri í hinum Norðurlöndunum, sem og um verðþróun þar síðustu ár.

Fram kemur m.a. í gögnum Landssambands kúabænda að verðmunur hér og á hinum Norðurlöndunum er gríðarlega mikill og er kjarnfóður t.d. meira en helmingi ódýrara í Danmörku. Jafnframt hefur verðþróun hérlendis verið töluvert önnur en í nágrannalöndunum. "Ekki hefur verið tekin ákvörðun um með hvaða hætti verður brugðist við þessum tíðindum en ljóst er að finna verður leiðir til þess að lækka verð á kjarnfóðri, enda vegur það þungt í framleiðslukostnaði mjólkur," segir í frétt á vef kúabænda.