Skandinavíska flugfélagið SAS er í miklum erfiðleikum um þessar mundir en verulegur taprekstur hefur verið á félaginu og það tapað að meðaltali um 600 milljónum króna á dag. Á sama tíma er að ríða yfir félagið stórsekt fyrir samkeppnislagabrot eða um 15 milljarðar króna. Um leið þurfa líklega eigendur félagsins, skandinavískir skattgreiðendur, að leggja félaginu til mikla fjármuni.

Til að bæta gráu ofan á svart er mikil óánægja meðal starfsmanna enda áform um að lækka laun flugfreyja um þriðjung. Um leið hafa verkalýðsfélög hótað félaginu aðgerðum. Þessu til viðbótar blasir við þörf á endurnýjun flugflotans. Þetta kemur fram í nýlegri úttekt danska blaðsins Politikens.

Stjórnarformaður félagsins Fritz H. Schur hefur átt í viðræðum við starfsmenn félagsins en þeir eru um 20 þúsund talsins. Er gert ráð fyrir að það þurfi a.m.k. að fækka þeim um 1500. Þá hefur Schur farið fram á að starfsmenn taki á sig 10 til 20% launalækkun.