Skoskir sjómenn neyðast til þess að að henda árlega fiski fyrir allt að 7 milljarða króna eða um 40 milljónir punda.

Þetta kom fram á ráðstefnu sem skosk stjórnvöld héldu í Edinborg í gær og greint er frá á vef LÍÚ.

Í fréttinni segir jafnframt að allt að einni milljón tonna af fiski sé hent í Norðursjónum árlega og er reglum Evrópusambandisns kennt um.

„Þetta þýðir með öðrum orðum að fyrir hvern þorsk sem landað er af skoskum sjómönnum er öðrum hent í hafið.  Þessi hrikalega lýsing kom fram í máli Richard Lochhead sjávarútvegsráðherra Skotlands.  Tilefni ráðstefnunnar er að hefja baráttu fyrir því að breyta þessum reglum, sem neyða sjómenn til þess að henda fiski í stað þess að landa aflanum og selja hann.“

Á ráðstefnunni eru einnig norskir ráðamenn en þeir munu taka málið upp í væntanlegum viðræðum við Evrópusambandið.