Afkoma Ford á 2. ársfjórðungi var 8,7 milljarða Bandaríkjadala tap. Minnkandi bílasala í Bandaríkjunum er helsta ástæða þess að tap fyrirtækisins varð jafn mikið og raun ber vitni. Tapið jafngildir 3,88 dölum á hlut en hagnaður á sama tímabili í fyrra var 31 sent á hlut, samtals 750 milljónir dala.

Ford ætlar að skipa smábílum stærri sess í framleiðslu sinni. Það er hluti af endurskipulagningu fyrirtækisins til að aðlaga það að hærra olíuverði.

Inni í tölunum er tap vegna afskrifta. Sé það ekki tekið með er tap af daglegum rekstri Ford 62 sent á hlut en meðalspá greiningaraðila sem Reuters tók saman gerði ráð fyrir 25 senta tapi á hlut.

Hlutabréf Ford lækkuðu um 9% í kjölfar þess að afkoman var kynnt.