Sprotafyrirtækið GRID hefur lokið 12 milljón dala fjármögnunarlotu, eða sem jafngildir yfir 1,6 milljörðum króna á gengi dagsins. Fjárfestahópurinn er leiddur af bandaríska sprotasjóðnum New Enterprise Associates, en fjármagnið er í tilkynningu sagt munu hjálpa félaginu að koma vörunni á markað og flýta fyrir þróunarferli hennar.

Hjálmar Gíslason stofnandi og framkvæmdastjóri GRID stefnir að því að eftir þrjú ár verði reksturinn orðinn sjálfbær, en til þess muni þurfa um hálfa milljón greiðandi viðskiptavina. Þær tekjur verði þó líklega frekar notaðar í að byggja starfsemina áfram upp. „Við stefnum á að vera komin með nægt tekjuflæði til að skila hagnaði ef við svo kysum.“

GRID gengur í stuttu máli út á að hjálpa notendum töflureikna á borð við Microsoft Excel að miðla upplýsingum á sem hreinlegastan, þægilegastan og skilvirkastan hátt.

Grunnvirkni forritsins verður öllum aðgengileg endurgjaldslaust, en ofan á það verður svo hægt að greiða mánaðargjald fyrir viðbótarvirkni. „Það er milljarður manns í dag sem notar töflureikna. Af þeim áætlum við að svona 100-200 milljónir þurfi reglulega að miðla gögnum úr þeim,“ segir Hjálmar, en fyrst um sinn verður horft sérstaklega á enskumælandi markað, og millistór fyrirtæki.

Áður hefur félagið fengið samtals 4,5 milljón dala fjármögnun, fyrst milljón dala englafjárfestingu strax í upphafi, en félagið var stofnað haustið 2018, og svo 3,5 milljón dala í fyrra.