Grid, félag Hjálmars Gíslasonar, sem Viðskiptablaðið ræddi ítarlega við í desember , hefur fengið 3,5 milljóna dala, viðbótarfjármögnun. Kemur aukningin, sem nemur 427 milljónum íslenskra króna, til viðbótar við 1 milljóna dala fjárfestingu englafjárfesta sem tilkynnt var um í október.

BlueYard, í Berlín, leiðir fjárfestingarhópinn sem kemur inn nú, en aðrir sem taka þátt í fjármögnuninni eru Slack Fund, Acquia Capital og englafjárfestirinn Charles Songhurst að því er Northstack greinir frá.

Í yfirlýsingu félagsins er fjárfestingin sögð duga þróunarvinnu félagsins, sem stofnað var í haust, vel inn í árið 2021. „Það gefur okkur það andrými sem við þurfum til að einbeita okkur að því að byggja grunnútgáfu vöru okkar, taka hana á markað, og straumlínulaga viðskiptalíkan okkar áður en við söfnum meira fé fyrir enn frekari vöxt og útvíkkun.“

Í spjalli Viðskiptablaðsins við stofnandann Hjálmar Gíslason kemur meðal annars fram að hann byrjaði að forrita átta ára gamall.