Sprotafyrirtækið GRID hyggst útvíkka samnefnt forrit í það að vera heildstæður töflureiknir og ætlar því í beina samkeppni við Microsoft Excel á því sviði. Forritið verður þó áfram tól til framsetningar gagna umfram það sem Excel býður upp á og mun auk þess bjóða upp á heildstætt umhverfi til að deila og eiga samskipti um gögnin.

Er um nokkra stefnubreytingu að ræða þótt sýnin sé enn í grunninn svipuð. Í viðtali við Viðskiptablaðið í desember 2018 lét Hjálmar Gíslason, stofnandi og framkvæmdastjóri GRID, hafa eftir sér að til væri „heill kirkjugarður af sprotafyrirtækjum sem hafa horft á þessi vandamál sem ég er að lýsa, séð tækifærin í lausn þeirra og ákveðið að búa til nýjan töflureikni frá grunni eða eitthvað sem er ekki töflureiknir en á að gera töflureikna óþarfa“.

Hjálmar segir hugmyndina hins vegar ekki vera að keppa við Excel í því sem Excel gerir hvað best, heldur bjóða upp á umframvirkni sem ekki má finna þar.

Óþarfi að fólk leiti annað
Áfram verður boðið upp á að vinna gögnin í Excel eða Google Sheets, en nota síðan GRID til að setja þau fram. „Við gerum okkur engar grillur um það að verða með stóra markaðshlutdeild á töflureiknamarkaði, og ætlum áfram að þjónusta þá sem eru að vinna í Excel og Sheets jafn vel og við höfum gert hingað til.“

Nú bjóðist notendum hins vegar einnig að vinna alfarið innan GRID frá upphafi til enda, kjósi þeir það.

„Við viljum að GRID sé fljótlegasta leiðin til að breyta gögnum sem þú sérð, hvar sem er, í fallegt myndrit. Það er óþarfi okkar vegna að fólk leiti annað til að vinna töflureiknaskjölin sín ef það er nú þegar að sækjast eftir því sem GRID hefur upp á að bjóða. Þeir sem hafa kynnst GRID vilja ekkert vera að flakka á milli forrita, þeir vilja bara geta gert þetta allt hjá okkur.“

Nánar er rætt við Hjálmar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .