Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá um helgina hagnaðist Brunnur vaxtarsjóður um 424 milljónir króna á síðasta ári. Brunnur á eignarhluti í tíu félögum sem flest eru skráð með heimkynni á Íslandi en tvö félaganna eru skráð með heimkynni erlendis, Oculis og Avo, en umrædd félög eru stofnuð af Íslendingum.

Bókfært virði 15,3% hlutar Brunns í Oculis nam tæplega 1,8 milljörðum króna. Miðað við bókfært virði hlutarins nemur markaðsvirði Oculis tæplega 12 milljörðum króna.

Brunnur á einnig 1,7% hlut í sprotafyrirtæki Hjálmars Gíslasonar, Grid. Er hluturinn metinn á tæplega 84 milljónir króna í bókum Brunns og miðað við það má ætla að markaðsvirði Grid sé um 5 milljarðar króna. Síðastliðið haust lauk sprotafyrirtækið 12 milljóna dala fjármögnunarlotu en hópurinn sem stóð að fjárfestingunni var leiddur af bandaríska sprotasjóðnum New Enterprise Associates.