Ásókn í ferðir hjá ferðaskrifstofum eru orðnar svipuð því sem þekktist á árunum fyrir hrun. Sérstaklega mikil eftirspurn hefur verið eftir skíðaferðum og nú er svo komið þær eru nánast allar uppseldar.

Talsmenn ferðaskrifstofa segja eftirspurn eftir ferðum á þeirra vegum hafa aukist gríðarlega undanfarin ár. Ásóknin í skíðaferðir á vegum fyrirtækjanna hefur verið sérstaklega mikil jókst um 20% milli ára. Vegna gengisstyrkingar er lítill verðmunur á skíðaferðum innanlands og erlendis.

„Eftirspurnin eftir skíðaferðunum byrjaði ótrúlega snemma í ár,“ segir Guðrún Sigurgeirsdóttir, framleiðslustjóri ferðaskrifstofunnar Vita.  „Við höfum verið með leiguflug til Verona á Ítalíu með Icelandair og þessar vélar voru eiginlega meira og minna uppseldar í september-október. Í dag eru nánast allar okkar skíðaferðir uppseldar, það er kannski eitt og eitt laust sæti hér og þar. Við tókum einnig upp á því að bæta við fleiri ferðum á skíðasvæði í Austurríki, til að anna eftirspurn, en þær ferðir hafa selst upp alveg eins og ferðirnar til Ítalíu,“ segir Guðrún.

20% aukning milli ára

Guðrún segir að þrátt fyrir að salan hafi verið sérstaklega góð árið 2015 hafi verið um 20% söluaukning milli ára sem sé mjög mikið.

„Ég held að það spili inn í hvað það er afskaplega erfitt að stóla á snjó á Íslandi. Um er að ræða ákveðinn lífsstíll sem fólk kemst upp á lagið með. Þetta eru ofsalega skemmtileg frí þar sem fólk hefur eitthvað að gera allan daginn, það vaknar snemma á morgnanna og fer í fjallið. Eftir daginn er svo hægt að slaka á í gufunni og borða góðan kvöldmat.“

Guðrún segir augljóst að efnahagsuppsveiflan hafi mikil áhrif á ferðavenjur Íslendinga. „Við finnum fyrir því að fólk er með meiri pening  á milli handanna og er farið að leyfa sér meira. Fólk er farið að ferðast aftur eins og það gerði á árunum fyrir hrun“.

Aukning í öllum ferðum

Jóhann Pétur Guðjónsson, framkvæmdarstjóri GB Ferða, segist finna fyrir aukningu í sölu á öllum ferðum. „Söluaukningin á milli áranna 2015-2016 var í kringum 23% og er hlutfallið svipað hvað varðar skíðaferðirnar. Salan á þeim fór töluvert fyrr af stað en venjulega og  nú er svo komið að mjög margar dagsetningar eru uppseldar hjá okkur.  Ég get nefnt sem dæmi áfangastaðinn Kitzbühel í Austurríki, sem hefur verið mjög vinsæll. Þegar við byrjuðum söluna í júní þá vorum við með 28 dagsetningar í boði en af þeim eru nú 20 uppseldar,“ segir Jóhann.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð ,

  • Rætt er við Óttarr Proppé og Guðlaug Þór um stöðu stjórnarmyndunarviðræðna.
  • Fjallað um magurt síðasta ár á hlutabréfamarkaði.
  • Erna Hreinsdóttir opnaði partýbúðina Pippu eftir að hafa hætt sem ritstjóri Nýs lífs.
  • Joseph Stiglitz er svartsýnn á framtíðarhorfur evrunnar og telur að hún gæti sungið sitt síðasta á þessu ári.
  • Skyndibitakeðjur finna fyrir uppgangi í þjóðfélaginu og nýta árferðið til að auka aðsvif sín.
  • Ítarlegt viðtal við Katrínu Júlíusdóttur, fyrrum þingmann og ráðherra, sem er nú nýr framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja.
  • Rætt er við einn af forsvarsmönnum The Brothers Brewery sem brugga bjór í Vestmannaeyjum.
  • Halldór Þorkelsson, nýráðinn framkvæmdastjóri Capacent á Íslandi, tekinn tali.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um krónuna og ESB.