Talið er að tjónið af völdum hvirfilbylsins sem fór yfir smábæinn Moore í Oklahoma á mánudag hafi numið allt að 2 milljörðum dollara, um 250 milljörðum króna. Þetta kemur fram á vef Wall Street Journal.

Talan byggir á bráðabirgðamati Tryggingarstofnunar Oklahomaríkis. Yfir 10 þúsund tjónakröfur hafa borist vegna hvirfilbylsins.

Um 50 þúsund íbúar eru í bænum. Algengt er að hvirfilbylir fari yfir svæðið í nágrenni bæjarins en það hefur gerst þrisvar sinnum á síðustu 10 árum.

Enn er talið að 24 hafi látist í hamförunum á mánudag og 377 slasast.