Unity Technologies hefur fengið 181 milljón Bandaríkjadala nýja fjármögnun, andvirði um 22 milljarða íslenskra króna. Íslendingurinn Davíð Helgason stofnaði fyrirtækið í Danmörku árið 2003, ásamt tveimur öðrum, Dana og Þjóðverja.

Tæknin á bak við Pokémon Go

Unity Technologies framleiðir verkfæri fyrir tölvuleikjaframleiðendur, smáa sem stóra, og er tæknin ein sú vinsælasta hjá þeim sem búa til leiki fyrir snjallsíma. Á síðustu fimm árum hefur velta Unity að jafnaði tvöfaldast á ári hverju.

Um þriðjungur þeirra sem þróa forrit fyrir farsíma og spjaldtölvur styðjast við tækni Unity, þar með talið Pokémon Go, leikurinn sem er að ná gífurlegum vinsældum þessa dagana.

Fjármögnunin er margföld á við síðustu fjármögnun fyrirtækisins sem var 25,5 milljón dala, en þar af var 7,5 milljón notuð til að kaupa hlutabréf af stofnendum. Meðal fjárfesta í fyrirtækinu er fjárfestingarsjóður kínverska ríkisins, en einnig félög á borð við FreeS Fund, Thrive Capital, Max Levchin og WestSummit, en það síðastnefnda hafði fjárfest áður í félaginu.