Yfir milljón manns eru notendur spurningaleiksins QuizUp. Leikjafyrirtækið íslenska, Plain Vanilla, hannaði leikinn en aðeins 8 dagar eru síðan leikurinn fór í loftið. Fyrirtækið náði þessum merka áfanga rétt upp úr kl 11 í gærkvöldi.

QuizUp er spurningaleikur fyrir farsíma en í honum getur fólk keppt við vini sína eða ókunnuga í að svara spurningum í hátt í 300 flokkum. Einnig er hægt að skoða prófíla annarra spilara og stofna til samræðna við þá í gegnum leikinn.

Framundan hjá Plain Vanilla er að laga leikinn að Android-stýrikerfinu en gert er ráð fyrir því að þeirri vinnu verði lokið um áramótin. Einnig hefur fyrirtækið auglýst nokkur störf laus til umsóknar og rann umsóknarfrestur út í gær.