Breytinga er að vænta á álagningu einsskiptisskattsins á innistæður, sem er hluti af björgun bankakerfisins á Kýpur. Þetta hefur Wall Street Journal eftir tveimur embættismönnum hjá Evrópusambandinu.

Eldri tillagan sem fjallað var um á vb.is í gær , sem samþykkt var af ríkisstjórn Kýpur á laugardag og átti að fara fyrir þing landsins í dag, miðaði að því að þeir sem eiga innan við 100 þús. evrur greiði 6,75% skatt en þeir sem eiga yfir 100 þús, evrur greiði 9,9%.

Embættismennirnir segja að nýja tillaga sé minni innistæðueigendum mun hagstæðari, en lang flestir eru í þeim hópi. Þeir sem eiga allt að 100 þúsund evrur myndu greiða 3% skatt, innistæðueigendur með 100-500 þúsund evrur 10% og þeir sem eiga yfir 500 þús. evrur 15%. Þessi leið myndi að sögn embættismannanna skila sömu fjárhæð og eldri leið, 5,8 milljörðum evra eða um 930 milljörðum króna.

Samkvæmt frétt WSJ segja embættismennirnir þessa leið vera sanngjarnari og jafnari leið. Þessi staðhæfing embættismannanna er órökstudd. Tillagan verður rædd á símafundi fjármálaráðherrra evrulandanna síðar í dag.