Lumenox Games, íslenskt tölvuleikjafyrirtæki, gefur þann 24. febrúar næstkomandi út tölvuleikinn Aarus Awakening fyrir PC, Mac og Linux. Leikurinn kemur út á Steam, sem er stærsta dreifiveita tölvuleikja í heiminum. Virkir notendur á Steam eru um 100 milljón talsins. Það að koma leiknum í dreifingu þar hlýtur að teljast gríðarleg viðurkenning fyrir ykkur?

„Vægast sagt mikil. Það að komast inn á Steam án þess að hafa gefið út leik áður er sannur heiður og margfaldar líkurnar okkar á að allt gangi sem best,“ segir Ingþór Hjálmarsson, einn eigenda félagsins og tölvuleikjahönnuður. Aarus Awakening hefur verið í þróun síðan í mars 2012. „Sólin skein óvenju mikið þann mánuðinn,“ segir Ingþór. Upphaflega stóð til að gera tveggja vikna verkefni í áfanga við Háskólann í Reykjavík. Verkefnið vatt síðan upp á sig með fyrrgreindum afleiðingum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .