*

fimmtudagur, 24. september 2020
Innlent 4. janúar 2020 09:01

Gríðarleg völd á fárra höndum

Forstjóra Kauphallarinnar þætti eðlilegra að stjórnir lífeyrissjóða væru kjörnar beint af sjóðfélögum.

Júlíus Þór Halldórsson
„Mér finnst eðlilegt að vera fylgjandi lýðræði þarna eins og í öðrum málum þar sem almenningur hefur ríkra hagsmuna að gæta,“ segir Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar.
Eyþór Árnason

Jafnvel þótt ákvörðunartaka sé á hendi fimm manna deilda eða stjórna lífeyrissjóðanna – sem í dag eiga hátt í 40% af íslenskum hlutabréfamarkaði, og enn meira í völdum skuldabréfaflokkum – segir Magnús Harðarson forstjóri Kauphallarinnar óhjákvæmilegt að mjög fáir aðilar stýri gríðarstórum hluta íslensks verðbréfamarkaðar með þeim hætti.

„Mér finnst í raun furðulegt að um þetta skuli ekki hafa verið háværari umræða. Það er bara svo margt að þessu. Færri leikendum á markaði fylgir verri verðmyndun en ella, og valdajafnvægið í þjóðfélaginu verður skrýtið að mínu viti. Þetta eru gríðarleg völd á fárra höndum, og maður veltir fyrir sér í hvaða umboði viðkomandi sitja í þessari valdastöðu.“ 

Því fari þó fjarri að í þessu felist gagnrýni á störf eða hæfni þeirra sem um ræðir. „Þeir sem stjórna þessum sjóðum eru bara að vinna innan þessa kerfis, og ég held að þeim hafi bara tekist ágætlega upp að sinna sínum skyldum að megninu til.“

Auk ofangreindra ókosta segir hann fjármagn einfaldlega ekki leita í sömu áttir í höndum fárra stórra aðila, sem síður skoði sprota- og nýsköpunarfyrirtæki og önnur minni fyrirtæki. „Færri augu komast einfaldlega ekki yfir sama magn upplýsinga, sama hversu hart fólk leggur að sér.“

Loks séu samkeppnissjónarmið sem líta verði til, enda sjóðirnir gjarnan meðal stærstu eigenda margra fyrirtækja á sama markaði í beinni samkeppni hvort við annað. „Það hefur verið flækja í kringum sumar fjárfestingar sjóðanna.“

Að hans mati væri það tvímælalaust til bóta að stjórnir lífeyrissjóða væru kjörnar beint af sjóðfélögum, í stað þess að vera tilnefndar af aðilum vinnumarkaðarins eins og nú er. „Það eitt og sér myndi ekki breyta því að tiltölulega fáir aðilar fara þarna með stjórn gríðarlegra fjármuna og þar með völd. Fleiri þátttakendur og meiri valddreifing væru þó mun heillavænlegri, ekki bara fyrir íslenskan verðbréfamarkað, heldur fyrir íslenskt samfélag. Mér finnst eðlilegt að vera fylgjandi lýðræði þarna eins og í öðrum málum þar sem almenningur hefur ríkra hagsmuna að gæta.“

Nánar er rætt við Magnús í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út 30 desember. Hægt er að kaupa eintak hér.