Fjárhagsvandræði bandarísku póstþjónustunnar halda áfram, en á þriðja ársfjórðungi fjárhagsársins var tap hennar 1,6 milljarður Bandaríkjadala. Er það hækkun frá 981 milljón dala ári fyrr.

Niðurstaðan hefur aukið ákall á að bandaríska þingið gangi í nauðsynlegar umbætur á þjónustunni, einnig frá póstþjónustunni sjálfri.

Lífeyrisskuldbindingar vega þungt

„Við skiluðum tapi, að hluti til frá áframhaldandi minnkun hefðbundin pósts, og hins vegar vegna aukins fjárhagsvanda tilkomnum vegna lífeyrisskuldbindinga,“ sagði framkvæmdastjóri fjármála og varaforstjóri stofnunarinnar, Joseph Corbett.

Að hluta til kemur tapið til vegna þess að aukagjald sem þingið hafði leyft þjónustunni að rukka viðskiptavini sína rann út, svo póstburðargjaldið lækkaði úr 49 sentum í 47 sent í apríl. Minnkaði það tekjur þjónustunnar um 500 milljón dali. Restin af tapinu kom að mestu vegna þess að þjónustan þurfti að greiða af gríðarumsvifamiklum lífeyris- og heilbrigðisskuldbindingum sínum.

Tekjurnar aukast

Reyndi Corbett að benda á björtu hliðarnar, en tekjur stofnunarinnar hækkuðu um 117 milljón dali miðað við sama tímabil fyrir ári síðan.

Hann talaði samt um nauðsyn þess að umfangsmiklar umbætur sem löggjafinn þyrfti að gera til að tryggja stofnuninni fjárhagslegan stöðugleika.

Varð háð tímabundinni hækkun

Samtök skattgreiðenda sagði að áhersla Corbett á að lækkun póstburðargjaldsins væri ein meginorsökin væri röng.

„Hækkunin var ætluð til að tryggja þjónustunni 4 milljarða í aukatekjur á kostnað notenda. Þrátt fyrir að tekjurnar af þessu ætti að vera tímabundin, fór póstþjónustan að treysta á þessa fjárhagshjálp og hefur beðið um að hún verði gerð varanleg. Vegna þess að hækkunin var sett á vöru sem skilar hagnaði en þarf ekki að standa í samkeppni, er einungis hægt að líta á framlengingu sem fjárhagshjálp til illa rekinnar opinberrar stofnunar,“ sagði í yfirlýsingu samtakanna.

Ósanngjarnt að þurfa að safna fyrir lífeyrisskuldbindingum

Verkalýðsfélag póstburðarfólks lagði hins vegar áherslu á að það væri ósanngjarnt að þjónustan þyrfti að fyrirframgreiða inn á lífeyris- og heilbrigðisskuldbindingar framtíðar.

„Ekkert opinbert né einkarekið fyrirtæki þarf að gera þetta, ekki einu sinni eitt ár fram í tímann, en póstþjónustan þarf að gera þetta áratugi fram í tímann,“ sagði forseti verkalýðsfélagsins, Fredric Rolando.

Hefur tapað meira en 5 milljörðum á ári undanfarið

Bandaríska póstþjónustan er hálfopinber stofnun, hún hlýtur yfirstjórn þingsins, en er skuldbundin til að starfa eins og sjálfstæð stofnun. Hún nýtur ekki opinberra niðurgreiðslna heldur verður að treysta á sölu póstþjónustu.

Á árinu 2015 tapaði hún 5,1 milljörðum dala, 5,5 milljörðum dala árið 2014 og 5 milljörðum árið 2013.