Toyota, næst stærsti bílaframleiðandi heims, hagnaðist um 290 milljarða jena á 2. ársfjórðungi ársins (1. ársfjórðungi reikningstímabils félagsins). Samsvarar það 3,7 milljörðum dala, um 450 milljörðum króna.

Afkoman var talsvert betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Salan jókst um 86% milli ára. Skýrist það af náttúruhamförunum í Japan í mars í fyrra sem hafði gríðarleg áhrif á iðnframleiðslu í landinu. Framleiðsla Toyota lagðist nánast af um allan heim vegna þess að sumir íhlutir í bílana voru eingöngu framleiddir í Japan.

Salan á tímabilinu nam 2,27 milljónum bíla. Til samanburðar nam sala General Motors 2,39 milljónum bíla.

Stjórnendur Toyota eru bjartsýnir. Þeir gera ráð fyrir að selja 10,05 milljónir bíla í ár í stað 9,76 milljóna eins og þeir höfðu áður áætlað.