Ríkissjóður Rússlands var rekinn með um 1,76 þúsund milljarða rúblna halla, eða sem nemur 25 milljörðum dala eða um 3.565 milljörðum króna, í janúar. Hallarekstur rússneska ríkisins í janúar hefur ekki verið meiri frá a.m.k. árinu 1998, samkvæmt Bloomberg.

Tekjur rússneska ríkisins af olíu og gasi í janúar drógust saman um 46% á milli ára og námu 5,9 milljörðum dala.

Fjármálaráðuneytið rekur samdráttinn til verðlækkunar á Urals, helstu hráolíublöndunni sem Rússar flytja út, ásamt því að útflutningur á gasi dróst saman. Markaðsverð Urals hefur verið töluvert undir verði á Brent hráolíu í kjölfar viðskiptaþvingana vestrænna ríkja á rússneskan útflutning.

Tekjur rússneska ríkisins í janúar drógust alls saman um 35% frá fyrra ári en útgjöld jukust um 59%, sem má einkum rekja til stríðsins í Úkraínu.

Í umfjöllun Financial Times segir að ríkissjóður Rússlands hyggist auka útgjöld til varnarmála um 3,5 þúsund milljarða rúblna í ár, eða sem nemur hátt í 50 milljörðum dala. Úkraínskir embættismenn hafa varað við því á undanförnum dögum að þeir telji Rússa vera að undirbúa stórsókn á komandi vikum.

Hallinn á ríkissjóði Rússlands í janúar vegur um 60% af áætluðum halla á öllu þessu ári. Fjármálaráðuneyti Rússlands segir að enn sé stefnt að því að ná viðmiðum um afkomu í fjárlögum.

Bráðabirgðatölurnar eru þær fyrstu sem rússneska fjármálaráðuneytið birtir frá því að vestræn ríki innleiddu verðþak og viðskiptabann að hluta á rússneska olíu í desember síðastliðnum.