Okkar félagsmenn bera sig illa vegna ástandsins á þeim forsendum að það sé erfitt að fá fólk með nauðsynlega þekkingu og að þetta sé jafnvel hamlandi fyrir þróun og uppbyggingu í viðkomandi atvinnustarfsemi,“ segir Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, sviðsstjóri mennta- og mannauðsmála hjá SI .

Aðeins 17% grunnskólanema í starfsmenntun

Samtök iðnaðarins kynntu fyrir skömmu nýja menntastefnu sem felur í sér tillögur að úrbótum til að bæta ímynd iðn- og tæknináms annars vegar og úrbótum á stjórnsýslu og kerfislægum vanda í tengslum við umgjörð og stjórnsýslu starfsmenntunar. Samtökin hafa einsett sér að iðnmenntun verði efld hérlendis á næstu misserum með markvissum hætti sem þjóni atvinnulífinu. Ingibjörg Ösp segir að fyrst og fremst sé stefnt að því að fjölga þeim sem sækja um starfsmenntun að loknum grunnskóla.

„Þetta hlutfall er mun lægra en í löndunum í kringum okkur. Ef við lítum á OECD-ríkin, þar sem hlutfallið er hæst um 35% í Þýskalandi, þá er hlutfallið hér um 17%, eða um helmingsmunur sem er alltof breitt bil. Við þurfum að grípa til aðgerða til að jafna þessi hlutföll og gera tækni- og iðnmenntun að álitlegum valkosti fyrir nemendur,“ segir hún.

Markmið SI er að 20% grunnskólanema velji starfsmenntun árið 2025 og árið 2030 sé það hlutfall komið upp í 30% Hún segir sennilegt að nokkrar mismunandi ástæður séu að baki dræmri aðsókn í starfsmenntun og að skipta megi þeim helstu í tvo flokka. „Annars vegar má gera betur varðandi umgjörð og stjórnsýslu í iðn- og starfsmenntun og hins vegar er ímynd námsins og starfanna ábótavant. Við teljum mikið vanta upp á að tækifærum til náms og starfa sé miðlað nægjanlega vel til nemenda og þá erum við að horfa á grunnskóla fyrst og fremst, það þarf að ráðast að rót vandans,” segir Ingibjörg Ösp.

„Við viljum styrkja starfsráðgjöf þar og sömuleiðis list- og verkkennslu. Nemendur virðast fá takmörkuð tækifæri til að kynnast greinum sem tengjast iðn- og starfsnámi. Af hverjum þrettán mínútum í námi á unglingastigi er grunnskólanemendum ætlað að verja einni mínútu í list- og verkgreinum. Auðvitað leiðir þetta til þess að þegar nemendur þurfa síðan að velja á milli bóknáms og starfsnáms þá stendur starfsnámið höllum fæti enda vantar nokkuð upp á að nemendur hafi fengið upplýsingar um það sem stendur til boða. Þeir hafa ekki fengið innsýn í greinar sem opnað gætu auga þeirra fyrir tækifærum sem þær búa yfir. Við gagnrýnum að viðmiðunarstundaskrá sé ekki fylgt þegar kemur að kennslu í list- og verkgreinum og viljum knýja fram úrbætur.

Krakkarnir velja ekki iðn- eða starfsnám ef þau hafa engar forsendur til þess, hvorki til að kynnast þessum greinum í grunnskóla né hafa þau aðgang að upplýsingum hvaða tækifæri bjóðast. Við sjáum það t.d. að þegar nemendur eru spurðir um hvaða leiðir þeir telja í boði fyrir sig í starfsnámi nefna þeir iðulega 4-6 leiðir, en þær eru hins vegar um 100 talsins. Upplýsingamiðlunin er því greinilega engan veginn nægjanlega skýr eða mikil.”

Skortur á starfsfólki stendur fyrirtækjum fyrir þrifum

Hún segir þennan mun á milli starfsmenntunar og bóklegra greina mikið áhyggjuefni enda sé gríðarlegur skortur á starfsfólki með iðnmenntun eins og fyrirtæki finna fyrir. „Þessi vöntun getur jafnvel staðið í vegi fyrir því að fyrirtæki vaxi og dafni,“ segir Ingibjörg Ösp. „Það kemur ítrekað fram í könnunum að það skortir fólk með þessa þekkingu og því nauðsynlegt að efla greinarnar. Við vitum það líka þegar skoðað er hvernig störf munu þróast og hvaða störf muni breytast eða jafnvel hverfa í náinni framtíð þá bendir allt til þess að störf í þessum greinum verði langlífari en mörg önnur; þau munu þróast en ekki hverfa. Það styður enn frekar mikilvægi þess að við hugum vel að iðnnámi.

Það má heldur ekki gleyma mikilvægi þess að ungmenni læri þessar greinar og fari svo áfram í háskóla til áframhaldandi náms enda eru mikil verðmæti í því fólgin að í greinunum starfi einstaklingar með ólíkan bakgrunn. Við þurfum fleiri í greinarnar, bæði einstaklinga sem leggja fagið fyrir sig og eins þá sem halda áfram námi og byggja þá ofan á góðan grunn.“

Nánar er fjallað um málið í Orku & iðnaði, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .