Íslenska sjónvarpsþáttaröðin Brot var frumsýnd á bresku sjónvarpsstöðinni BBC4 laugardagskvöldið 21. nóvember síðastliðinn og er óhætt að segja að viðtökur hafi verið góðar.

Yfir 800 þúsund manns horfðu á fyrsta þátt þáttaraðarinnar, sem ytra kallast The Valhalla Murders. Var þátturinn með mest áhorf alla dramaefnis þá vikuna og hefur áhorf á dramaefni stöðvarinnar á laugardagskvöldum ekki verið meira í að minnsta kosti tvö ár. Þetta kemur fram á breska vefnum Broadcast .

Þættirnir hljóta fjórar stjörnur af fimm mögulegum í gagnrýni hjá Financial Times þar sem Nínu Dögg Filippusdóttur er hrósað fyrir frammistöðu sína. Fréttamiðillinn i news tekur í sama streng og gefur þáttunum fjórar stjörnur auk þess að hrósa Nínu Dögg sérstaklega. Í gagnrýninni kemur fram að þættirnir séu í stíl við staðalímynd sjónvarpsefnis frá Norðurlöndunum og má ljóst vera að sá stíll falli vel í kramið hjá gagnrýnendum.

Gagnrýnandi The Guardian var þó ekki jafn hrifinn. Hann sagði þættina vissulega tikka í mörg spennuboxin, en finnst furðu sæta að efni frá svo skapandi þjóð tiki helst í box sem tengjast annars vegar kvenlöggu sem glímir við erfiðleika á heimilinu og skilningslausa yfirmenn, og hins vegar afhjúpun leyndardóma umönnunarheimilis frá níunda áratugi síðustu aldar.

Gagnrýnandi The List gaf þáttunum þrjár stjörnur og þóttu þættirnir ágætir en helst til ófrumlegir og bætir við að þeir bjóði ekki upp á neitt sem ekki hafi sést áður frá Norðurlöndunum. Hann segir þættina ná athygli sinni, en þrátt fyrir að markmið þáttanna sé að vekja með áhorfendum djúpan hroll, þá séu þættirnir þegar allt kemur til alls hlandvolg skál af kjötsúpu.

Sitt sýnist hverjum, en ljóst má vera af áhorfstölum að breskir sjónvarpsunnendur eru spenntir fyrir sjónvarpsefni frá Norðurlöndunum.