Íslendingar hafa lagt rúma 3 milljarða til SOS Barnaþorpa síðan 1989. Þar fá munaðarlaus börn nýtt líf, fjölskyldu og framtíð. Starf SOS felst fyrst og fremst í því að útvega munaðarlausum og yfirgefnum börnum griðastað, þar sem öllum grunnþörfum er sinnt. Þau eignast heimili og fjölskyldu, fá menntun, ástúð og öryggi,“ segir Ulla Magnússon stjórnarformaður og stofnandi SOS á Íslandi.

Nú búa um 80 þúsund börn í 518 SOS Barnaþorpum í 125 löndum. Þá hjálpa samtökin yfir 300 þúsund börnum sem búa hjá foreldrum sínum eða öðrum forráðamönnum en þá eru aðstæður fjölskyldunnar þannig að hætta er á að hún sundrist. Þessi verkefni kallast Fjölskylduefling SOS. Auk þess reka samtökin fjölda leikskóla, grunnskóla, verknámsskóla, heilsugæslustöðva og samfélagsmiðstöðva um allan heim og taka þátt í neyðaraðstoð í síauknum mæli.

Síðan samtökin hófu starfsemi hérlendis árið 1989 hafa Íslendingar lagt SOS til rúmlega 3,1 milljarð króna. Ulla segir að eftir hrunið á Íslandi 2008 hafi nokkur hundruð styrktaraðilar sagt upp stuðningi sínum, en aðrir bæst við svo um örlitla aukningu er að ræða. „Margir hafa neyðst til að hætta stuðningi vegna fjárhagserfiðleika. Það hefur reynst flestum erfið ákvörðun, svo margir bíða eftir betri hag til að geta tekið upp styrktarþráðinn að nýju,“ segir Ulla.

Rúmlega 5000 börn með íslenska styrktarforeldra Ulla segir sérstöðu barnaþorpanna felast fyrst og fremst í því að börnin fá SOS móður (í sumum tilvikum líka föður) sem fyllir það skarð sem myndaðist í lífi barnsins þegar það missti foreldra sína. Þannig fái börnin nýtt og ómetanlegt tækifæri til að tilheyra samhentri fjölskyldu.