Ákveðið hefur verið að opna skóla- og skiptabókamarkað Griffills í Laugardalshöll á morgun. Byrjað verður með látum í móttöku skiptibóka og verður greiddur bónus fyrir hverja skiptbók sem tekið verður á móti fram að Verslunarmannahelgi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Tjón Griffils var gríðarlegt þar sem allt brann sem brunnið gat. Því er biðlað við til námsmanna, fyrrverandi og núverandi að nota tækifærið og skila inn notuðum námsbókum og fá sérstakan bónus á hverja bók í kaupbæti.

Ingþór Ásgeirsson, hjá Griffli, segir þá hafa skoðað málið og niðurstaðan hafi verið sú að opna skólamarkaðinn í Laugardalshöllinni og hefjast handa við móttöku notaðra skólabóka strax á morgun.

Móttaka skiptibóka hefst á morgun klukkan 13:00 og eftir Verslunarmannahelgi hefst sala bóka og annarra vara sem skólafólk þarf fyrir veturinn.

Ingþór segist hvetja námsmenn og aðra sem eiga námsbækur heima að nota tækifærið og skila inn námsbókum á miklu betra verði en sést hefur. Hann segir þetta verða alvöru skóla og skiptibókamarður eins og Griffill er þekktur fyrir. Hann segir Griffil hafa verið leiðandi á þessu sviði til fjölda ára og þeir láti ekki eldsvoða skemma það.

Hægt verður að nálgast lista yfir skiptibækur á heimasíðu Griffils og á Facebook. Eins og áður sagði hefst móttaka skiptibóka á morgun klukkan 13:00 og skólamarkaður Griffils opnar svo formlega 7. ágúst.