Gríska ríkið áformar að selja ríkisgasfyrirtækið Depa og 35 byggingar í eigu hins opinbera á fyrstu þremur mánuðum næsta árs til að eiga fyrir skuldum. Áætlað er að eignasala ríkisins gefi af sér 50 milljarða evra, jafnvirði 8 þúsund milljarða króna.

Deila má um það hvort ríkið sé á góðu skriði en það hefur náð að selja eignir fyrir 4% af milljörðunum 50.

Reuters-fréttastofan segir eignasöluna hluta af skilyrðum stjórnvalda fyrir lánum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusambandsríkjunum.

Costas Mitropoulos, forstjóri sjóðs sem fer með eignir gríska ríkisins, segir í samtali við Reuters-fréttastofuna stefnt að eignasölunni þrátt fyrir óróleika á mörkuðum.

Á meðal eigna sem á að selja eru tólf hafnir, 39 flugvellir og vatnsveita Aþenu og Þessalóníku.