Grísk stjórnvöld hafa krafið þýska tæknirisann Siemens um bætur. Saka stjórnvöld fyrirtækið um að hafa mútað opinberum starfsmönnum. Þetta kemur fram á vef BBC.

Ætlaðar múturgreiðslur munu hafa átt sér stað á árunum 1997-2002 vegna samninga um símaþjónustu og öryggisþjónustu fyrir Ólympíuleikana í Aþenu árið 2004.

Grísk þingnefnd, sem starfaði í ellefu mánuði, metur tjón ríkisins 2 milljarða evra, rúmar 300 milljarða króna. Viðskiptaráðherra Grikklands hefur sent Siemens bréf og tilkynnt fyrirtækinu um að ríkið muni sækja bætur vegna spilltrar hegðunar fyrirtækisins.

Fyrrum ráðherra sósíalista viðurkenndi mútur í fyrra

Fyrrum samgönguráðherra Sósíalistaflokksins, Tassos Mantelis, viðurkenndi í fyrra að hafa þegið 100.000 evrur, um 15 milljónir króna, árið 1998 í tengslum við Ólympíuleikana.  Ekki er hægt að ákæra ráðherrann eða aðra menn í sömu stöðu vegna brota sem þessara vegna friðhelgis sem þeir njóta í embætti.