Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, lagði áherslu á að Grikkir einbeiti sér að fjölgun starfa og auknum hagvexti. Þetta kom fram í máli hans þegar hann fundaði með Antonis Samaras, forsætisráðherra Grikklands, á fimmtudaginn.

Fundurinn fór fram í Hvíta húsinu í Washington. Eftir fundinn sagðist Obama vera þess fullviss að Grikkjum myndi takast að grynnka á skuldum ríkissjóðs og koma hagkerfinu af stað á ný.

„Það eru miklir hagsmunir í húfi,“ sagði Obama. Ekki bara fyrir Grikkland heldur alla Evrópu og alheimshagkerfið.

Obama og Samaras voru sammála um að það væri ekki nóg að einblína á niðurskurð. „Þegar verið er að fást við þann vanda sem Grikkland stríðir við er ekki nóg að einbeita sér að niðurskurði. Það er mikilvægt að hafa góða fjárhagsáætlun en það er líka mikilvægt að einbeita sér að hagvexti og fjölgun starfa,“ er haft eftir Obama á vef Washington Post .