Fjármálaráðherrar Evruríkjanna munu ræða það eins fljótt og auðið er hvernig hægt verður að hjálpa Grikkjum fjárhagslega. Þetta segir Donald Tusk , forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Hin fjárhagslega hjálp mun að minnsta kosti felast í brúarfjármögnun (e. bridge financing), til að hjálpa Grikkjum að mæta þeim skuldbindingum sem eru komnar á gjalddaga eða falla á gjalddaga á næstunni.

Um er að ræða þriðja björgunarpakkann sem Grikkir fá af hálfu Evrópusambandsins á síðustu árum, en leiðtogar Evruríkjanna náðu samkomulagi um áætlun klukkan 9 í morgun að staðartíma í Brussel eftir 17 tíma fundarhöld. Eftir er að fá samþykki fyrir áætluninni frá stofnunum Evrópusambandsins, grísku ríkisstjórninni og ríkjum Evrusvæðisins.

BBC greinir frá því að á meðal þess sem kemur fram í áætluninni er að 50 milljarðar evra af eignum gríska ríkisins munu vera settar í sérstakan sjóð, meðal annars til að fjármagna gríska bankakerfið. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir Evrópusambandið munu fylgjast með hvernig sjóðnum verður ráðstafað. Hún segir jafnframt að skuldaniðurfelling sé ekki hluti af samkomulaginu.