Leiðtogar evruríkjanna hafa samþykkt að veita gríska ríkinu 7 milljarða evra brúarlán til að hjálpa Grikkjum að mæta fjármögnunarþörf sinni þangað til frekari skuldaaðgerðir verða samþykktar. Jafnframt hefur verið samþykkt að hækka fjárhæðarþak neyðarfjárveitinga til grískra banka. BBC greinir frá þessu.

Aðgerðirnar koma í kjölfar þess að gríska þingið samþykkti í gær róttækar efnahagslegar endurbætur, meðal annars á lífeyriskerfi landsins. BBC vitnar í gríska fjölmiðla sem segja að bankar þar í landi muni opna á mánudag.

Grikkir þurfa að greiða 4,2 milljarða evra til evrópska seðlabankans á mánudag, auk þess sem 1,6 milljarða evra afborgun af láni frá AGS féll á gjalddaga í síðasta mánuði. Því þarf gríska ríkið að nota næstum allt brúarlánið á næstu dögum.

Viðskiptablaðið greindi frá því í gær að deilur væru milli forystumanna evrusvæðisins og Breta vegna þátttöku þeirra síðarnefndu í hugsanlegum björgunaraðgerðum.