Leiðtogar evruríkjanna hafa tekið vel í efnahagslegar umbótatillögur Grikklands og eru flestir vongóðir um að samkomulag náist við landið á næstu dögum. BBC News greinir frá þessu.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði að nokkur árangur fælist í nýjum tillögum Grikklands. Hins vegar væri samkomulag ekki í höfn og tíminn naumur.

Þrátt fyrir það virðist sem ákveðnar lykilhindranir hafi verið ruddar úr vegi, samkvæmt frétt BBC. Núverandi samningaviðræður miða meðal annars að því að lagðir verði nýir skattar á fyrirtæki og auðmenn í Grikklandi, auk þess sem virðisaukaskattur verði hækkaður á völdum sviðum. Þá yrði dregið úr úrræðum fólks til að fara snemma á ellilífeyri.

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði á blaðamannafundi seint í gærkvöldi að hann væri sannfærður um að samkomulag næðist fyrir lok vikunnar. Wolfgang Schaeuble, fjármálaráðherra Þýskalands, var hins vegar ekki jafnbjartsýnn og sagði ekkert nýtt vera í tillögum Grikkja.

Samningar þurfa að nást fyrir mánaðamót til þess að forða Grikklandi frá greiðslufalli og hugsanlegri brottför úr evrusamstarfinu.