Skrúfað verður fyrir lánveitingar til Grikklands rjúfi ný ríkisstjórn þar í landi það samkomulag sem er í gildi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Evrópusambandið, evrópska seðlabankann og kröfuhafa landsins. Þetta segir þýski sósíaldemókratinn Martin Schulz, sem jafnframt er forseti Evrópuþingsins.

Þeir stjórnmálaflokkar í Grikkklandi sem innsigluðu samkomulagið við lánardrottna í því augnamiði að forða landinu frá gjaldþroti töpuðu í þingkosningunum um síðustu helgi. Fréttaskýrendur segja niðurstöðuna lýsandi fyrir andstöðu kjósenda við þær aðhaldsaðgerðir sem þeir hafa þurft að taka á sig vegna samkomulagsins. Leiðtogi vinstrimanna lýsti því yfir að þeir líti svo á að samkomulagið hafi verið ógilt.

Samkvæmt samkomulaginu þarf gríska ríkisstjórnin að skera frekar niður til að eygja von um að fá 11,5 milljarða lán frá lánardrottnum sínum svo landið geti staðið við skuldbindingar sínar.

Þessu mótmæla þýskir ráðamenn enda hafa Þjóðverjar þurft að taka á sig mikið högg vegna áhrifanna af skuldavanda Grikkja og afskrifta á skuldum þeirra í aðdraganda björgunaraðgerða.

„Það verður að virða samkomulagið. Ég held að við getum ekki samið upp á nýtt,“ sagði Schulz í samtali við Reuters-fréttastofuna í dag.

Fleiri þýskir stjórnmálamenn hafa gripið í sama streng í dag.