Grikkir virðast seint ætla að komast upp úr kreppunni en hagvöxtur hefur ekki sést þar í landi í að verða sex ár. Hagtölur sem birtar voru í morgun eru allt annað en jákvæðar. Þær sýna að gríska hagkerfið dróst saman um 7,2% á þriðja ársfjórðungi. Samdrátturinn bætist við 6,3% á öðrum fjórðungi ársins.

Reuters-fréttastofan segir stöðuna í grísku efnahagslífi mjög slæma. Hagkerfið hafi dregist saman um 20% á sama tíma og fjórði hver Grikki er án atvinnu.

Fréttastofan hefur eftir Xenophon Damalas, forstöðumanni eignastýringar hjá gríska bankanum Marfin Egnatia í Aþenu, að áfram muni þrengja að í grísku efnahagslífi fram á fyrri hluta næsta árs. Hann bendir hins vegar á að ef ferðamannasumarið hefði ekki reynst eins gott og það var þá hefði niðursveiflan orðið meiri en 7,2%.

Gert er ráð fyrir því að hagvöxtur verði neikvæður á Grikklandi um 6,5% á árinu og 4,5% á næsta ári. Gríska ríkisstjórnin gerir hins vegar ráð fyrir lítilsháttar efnahagsbata undir lok næsta árs og 0,2% hagvexti árið 2014.