Grískur almenningur er farinn að flykkjast í verslanir um þessar mundir. Ástæðan er í stuttu máli sú að fólk telur innistæður sínar ekki tryggar á bankabók og leitar því í aðra möguleika til að geyma verðmæti sín. Þetta kemur fram í frétt New York Times um málið.

Grískir bankar eru lokaðir og grikkir geta ekki tekið út hærri upphæð úr hraðbönkum en sem nemur 60 evrum eða um 9.000 íslenskum krónum. Þar að auki eru alþjóðlegar millifærslur óheimilar.

Í fréttinni er m.a. rætt við gríska skartgripasalann George Papalexis sem sagði frá því að viðskiptavinur hafði komið til hans síðastliðinn miðvikudag og boðist til að kaupa skartgripi fyrir eina milljón evra. Papalexis afþakkaði hins vegar boðið vegna þess að honum þótti öruggara að halda í skartgripina en að eiga peningana inni á bankabók. „Ég trúi því varla að ég hafi afþakkað milljón dollara boði,“ sagði hann í samtali við New York Times. „En ég varð að afþakka það. Þetta er mælikvarði á þá áhættu sem blasir við okkur.“