Ríkissjóður Grikklands á næga fjármuni til að standa við skuldbindingar sínar fram til 20. júlí næstkomandi. Hann mun hins vegar ekki geta greitt ríkisstarfsmönnum og ellilífeyrisþegum nema brot af því sem þeir eiga von á í ágúst.

Sænska fréttastofan TT segir gískan almenning gera sér grein fyrir þröngri stöðu ríkisins á sama tíma og það veltur á niðurstöðum þingkosninganna um helgina hvort ríkissjóður fái áfram þau neyðarlán sem hann þarf á að halda til að standa við skuldbindingar sínar.

Af þessum sökum hafa Grikkir hreinsað sparifé sitt úr bönkunum og fært það undir kodda til að eiga fyrir nauðsynjum fari allt á versta veg.