Stjórnvöld á Grikklandi binda nú vonir við það að lánardrottnar landsins samþykki næsta skammt af aðhaldsaðgerðum. Vonast er til að aðgerðirnar spari ríkinu 11,5 milljarða evra, jafnvirði 1.700 milljarða íslenskra króna, á næsta og þarnæsta ári. Sendinefnd á vegum lánardrottna frá Evrópusambandinu, evrópska seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er væntanleg til Grikklands um miðjan næsta mánuð.

Samþykki fyrir aðhaldsaðgerðunum er lykillinn að því að gríska ríkið fær aukin lán til að standa við skuldbindingar hins opinbera.

Reuters-fréttastofan segir ráðamenn á Grikklandi búna að draga upp mynd af því hvar hægt er að herða sultarólina sem spara eigi ríkinu tæpa 11 milljarða evra. Um sjö hundruð milljónir standa út af og er gert ráð fyrir að Grikkir verði búnir að finna í skúmaskotum landsins hvar hægt verði að draga frekar saman. Reuters bendir reyndar á að í þýska blaðinu Der Spiegel um helgina segi að til viðbótar við 11,5 milljarða þurfi að spara 2,5 milljarða til viðbótar á næstu tveimur árum.

Á meðal þeirra helstu aðgerða sem nú liggja fyrir er lækkun lífeyrisgreiðslna, lækkun launa starfsmanna ríkisins auk lækkunar bóta auk þess sem stefnt sé að því að segja upp allt að 40 þúsund ríkisstarfsmönnum á næstu árum.