Ef ekki tekst að endurfjármagna bróðurpart skulda Grikklands er hætta á að ríkið farið í greiðsluþrot í sumar. Staða Grikklands snertir þó á fleiri málum, t.a.m. evrusamstarfinu, en nú reynir á stoðir samstarfsins og afstöðu Evrópusambandsins (ESB) til mála sem þessa.

Nú er Grikkland ekki fyrsta og ekki eina ríkið innan ESB sem lendir í verulegum vandræðum. Á síðasta hálfu öðru ári hafa Írland, Spánn, Portúgal og Ítalía lent í töluverðum vandræðum auk Eystrasaltsríkjanna. Í raun hefur ekkert ríki sambandsins komist hjá efnahagskrísunni sem ríkt hefur á alþjóðamörkuðum þótt þau hafi lent mismikið í miðjum storminum.

Vandræði Grikklands eru þó frábrugðin að því leytinu til að gríska ríkið horfir sem fyrr segir fram á greiðslufall í vor ef ekki tekst að semja um endurfjármögnun á stórum hluta skulda ríkisins. Þrátt fyrir erfiðleika fyrrnefndra ríkja hefur ekkert þeirra horft fram á algjört greiðslufall. Erfiðleikar, og ekki síður úrlausn þeirra, eru því áhugaverður prófsteinn á burðarþol myntbandalagsins.

Það er samhljóma álit fjölmiðla og álitsgjafa í Evrópu að nú muni virkilega reyna á hvort ríki ESB komi hvert öðru til bjargar í neyð eða hvort leitað verður annarra lausna. Hvað Grikkland eitt og sér varðar er ljóst að algjör viðsnúningur þarf að eiga sér stað í fjármálum hins opinbera þar í landi ef ekki á að sigla fjárhag landsins í kaf.

George Papaconstantinou, fjármálaráðherra Grikklands, sagði aðspurður um þetta að það væri eins og að breyta stefnu Titanic. Hann bætti þó við að grísk stjórnvöld myndu taka til í sínum ranni.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .