Grikkir voru hvattir til að undirbúa frekari niðurskurð á fjárlögum á fundi fjármálaráðherra evruríkjanna í Brussel.Grikkir voru einnig hvattir til að ganga á næstu dögum frá samningum við lánadrottna sína um niðurfellingu skulda. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Viðræður grískra stjórnvalda við samninganefnd lánadrottna úr einkageiranum um niðurfellingu skulda hefur ekki skilað árangri.

Fjármálaráðherrarnir lýstu yfir stuðningi við afstöðu Grikkja í viðræðunum. Í stað þeirra ríkisskuldabréfa sem lánastofnanirnar sitja á nú verða gefin út ný skuldabréf. Ágreiningurinn er um þá vexti sem þau eiga að bera. Þar munar hálfu prósenti. Grískir embættismenn gáfu sér í gærkvöld frest til 13. febrúar til að ganga frá málinu.