Grísk stjórnvöld tilkynntu í morgun að til stæði að gefa út ný 7 ára skuldabréf í þeirri von að afla ríkinu fjármagns en sem kunnugt riðar gríska ríkið nú á barmi gjaldþrots eftir óráðsíu í opinberum fjármálum síðustu árin

Athyglisvert verður að fylgjast með útgáfunni því hér er um að ræða fyrstu skuldabréfaútgáfu gríska ríkisins eftir að leiðtogar evrusvæðisins ákváðu að koma ríkinu til bjargar fyrir helgi. Viðmælandi Reuters fréttaveitunnar orðar það þannig að skuldabréfaútgáfan verði í raun bæði prófraun á Grikkland en eins á trúverðugleika björgunar evruríkjanna.

Gera má ráð fyrir að ávöxtunarkrafan verði nokkuð minni en verið hefur á grískum skuldabréfum síðustu ár að mati Reuters. Þannig megi reikna með því að fjárfestar líti þannig á að fjárfesting í grískum skuldabréfum sé áhættuminni en hún var áður og sætti sig því við lægri ávöxtun.

Leiðtogar stærstu evruríkjanna samþykktu í síðustu viku að útvega grískum stjórnvöldum 22 milljarða evra neyðarlán takist Grikkjum ekki að útvega sér reiðufé til að fjármagna skammtímaskuldir ríkisins.