Georg Papandreou, forsætisráðherra Grikklands, tilkynnti á þingflokksfundi í gærkvöld að efnt verði til bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um samkomulagið við ESB vegna skuldavanda landsins sem samþykkt var á leiðtogafundinum í síðustu viku. Þetta kom fram á RÚV.

Samkomulagið felur í sér áframhaldandi fjárhagsaðstoð, afskriftir ríkisskulda og viðtækar aðhaldsaðgerðir. Papandreou sagði að gríska þjóðin ætti að eiga síðasta orðið um samkomulagið.

Sparnaðarráðstafanir stjórnarinnar eru afar óvinsælar en hart hefur verið skorið niður þar í landi. Í könnun sem birt var um helgina sögðu 58% að þeim litist illa á samkomulagið. Yfir 70% vildu hins vegar að Grikkir héldu í evruna. Reiknað er með að þjóðaratkvæðagreiðslan verði haldin snemma á næsta ári. Sérfræðingar segja að verði samkomulagið fellt sé Grikkland gjaldþrota og verði að segja skilið við evruna samkvæmt frétt RÚV. Venizelos, fjármálaráðherra, sagði á fundinum í grærkvöld að það sé grísku þjóðarinnar að ákveða hvort landið eigi áfram að tilheyra evrusvæðinu eða hvort taka eigi aftur upp drökmuna.