Evangelos Venizelos
Evangelos Venizelos
Evangelos Venizelos, fjármálaráðherra Grikklands, ásamt Lucas Papademos, forsætisráðherra landsins .

Gríska ríkisstjórnin tryggði sér í dag vilyrði frá meirihluta eigenda grískra ríkisskuldabréfa fyrir uppstokkun á lánum hins opinbera. Þetta var eitt af síðustu stóru skrefunum sem vonast er til að munu gera stjórnvöldum kleift að standa við stóra gjalddaga á erlendum lánum í mánuðinum og forða landinu frá því að ramba fram af gjaldþrotabarminum. Enn sem komið er hafa um 60% lánardrottna ríkisins samþykkt skuldbreytinguna en líklegt þykir að fleiri bætist í hópinn og fari hlutfallið upp í allt að 80%, að því er Bloomberg-fréttaveitan hefur eftir grískum fjölmiðlum.

Evangelos Venizelos, fjármálaráðherra Grikklands, var afar bjartsýnn í gær og sagði á gríska þinginu um sögulega stund að ræða. Endanlegar tölur um það hversu margir kröfuhafar ríkisins hafa gefið grænt ljós á skuldbreytinguna verður tilkynnt á morgun.

Bloomberg-fréttaveitan ítrekar það sem hún greindi frá fyrr í dag, að þetta er einhver umfangsmesta skuldbreyting á ríkisslánum sögunnar. Samningarnir fela í sér að lánardrottnar gríska ríkisins skipta skuldabréfum sínum upp á samtals 124 milljarða evra fyrir skuldabréf sem eru rétt rúmlega helmingi minna virði, með lengri gjalddaga og bera auk þess lægri vexti. Bloomberg-fréttaveitan reiknaði út fyrr í dag að þetta samsvari því að kröfuhafar gríska ríkisins tapi um og yfir 70% af upphaflegri fjárfestingu sinni.

Í hópi þeirra eru nokkrir af umsvifamestu bönkum Evrópu, bæði í Þýskalandi og Frakklandi, grískir lífeyrissjóðir og bankar þar í landi. Eins og hlutföll þeirra kröfuhafa sem hafa gefið vilyrði sitt fyrir skuldbreytingunni bera með sér þá eru ekki allir samþykkir henni. Bloomberg segir að þótt gríska ríkisstjórnin hafi fram til þessa stefnt að því að ná fram samþykki með glöðu þá megi ekki útiloka að hún beiti fyrir sér klausum í lánasamningum sem beinlínis þvinga lánardrottna að borðinu til þess eins að undirrita skiptasamningana.