Mario Draghi, bankastjóri evrópska seðlabankans, staðfesti í dag að stjórnvöld á Grikklandi hafi nú loks náð saman í viðræðum við sendifulltrúa Evrópusambandsins, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og kröfuhafa ríkisins um niðurfellingu skulda hins opinbera samhliða niðurskurði á fjárlögum ríksins. Draghi sagði jafnframt lendinguna mikilvægt skref í þá átt að kasta til Grikkja 130 milljarða evra björgunarlínu svo þeir geti staðið við skuldbindingar sínar.

Það var Lucas Papademos, forsætisráðherra Grikklands, sem greindi Draghi frá þessari lendingu í málinu.

Evrópski seðlabankinn á mikið af grískum ríkisskuldabréfum og mun skuldaaðlögunin fela í sér að bankinn verði að afskrifa hluta af eign sinni. Draghi vildi ekki svara Bloomberg-fréttastofunni um niðurfærsluna þegar hann var inntur ef því hvort það sé ásættanlegt.

Á meðal helstu atriða sem ráðamenn samþykktu voru umfangsmiklar uppsagnir ríkisstarfsmanna á næstu þremur árum, dregið verður úr ríkisútgjöldum og fleira í þeim dúr. Niðurstaðan hefur ekki farið vel í Grikki. Atvinnuleysi þar í landi mældist 20,9% í nóvember. Hæst er hlutfallið í röðum fólks undir 25 ára aldri en nærri helmingur fólks á þeim aldri er án atvinnu.