Grísk stjórnvöld skiluðu í gær af sér tillögum til Evrópusambandins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um þær hagræðingaraðgerðir sem Grikkir eru tilbúnir að grípa til gegn afhendingu á tæplega átta milljarða evra neyðarláni. Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, segir í tillögunum séu grísk stjórnvöld að gefa eftir af kröfum sínum, enda þurfi slíkt að gerast eigi málamiðlun að nást í deilu.

Í frétt Reuters er hins vegar haft eftir heimldiarmönnum að þetta sé ekki rétt. Að í tillögum Grikkja séu engar nýjar eftirgjafir af hálfu Grikkja svo máli skipti. Þannig sé afstaða grískra stjórnvalda til vinnumarkaðs- og lífeyrismála óbreytt.

Náist ekki samkomulag í þessum mánuði eru allar líkur á því að gríski ríkissjóðurinn muni ekki geta staðið í skilum á stórum afborgunum lána. Afleiðingarnar gætu m.a. orðið þær að sett verði á gjaldeyrishöft og að Grikkland þurfi jafnvel að yfirgefa evrusamstarfið.