Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, býr sig nú undir að hitta Vladimir Putin, forseta Rússlands, á fundi í næstu viku, en talið er að þar muni hann ræða mögulega lánveitingu síðarnefnda ríkisins til hins fyrrnefnda. Reuters greinir frá þessu.

Grikkir hafa átt í samningaviðræðum við lánardrottna sína á evrusvæðinu undanfarnar vikur en þær hafa ekki gengið sem skyldi. Ef ekki fæst niðurstaða í málið á næstunni gæti greiðsluþrot ríkisins átt sér stað í apríl næstkomandi.

Tsipras hafði áður skipulagt fund með Putin í maí næstkomandi, en flýtti fundinum fyrir fáeinum vikum.  Viðræður við Þýskaland og aðra lánardrottna hafa gengið illa, og vilja evruríkin ekki veita fjármuni til Grikklands nema fyrir liggi skýr umbótaáætlun af hálfu landsins, en án þessara fjármuna gæti Grikkland orðið gjaldþrota og jafnvel yfirgefið evrusamstarfið sem gæti ýtt undir óstöðugleika á svæðinu.

Stjórnvöld í Grikklandi segja hins vegar að um hefðbundinn fund sé að ræða sem sé ætlað að styrkja sambandið milli ríkjanna tveggja. Hins vegar hafa sumir embættismenn í Grikklandi sagt það freistandi að athuga hvort Rússar séu viljugir til þess að hlaupa undir bagga snúa Evrópa bakinu gegn Grikkjum.