Grískir launþegar lögðu niður störf í dag í mótmælaskyni við fyrirhugaðar niðurskurðaráætlanir sem felast í skuldasamningum grískra stjórnvalda við Evrópusambandið, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og eigendur grískra skuldabréfa.

Deiluaðilar náðu samningum í fyrrinótt eftir langa og stranga fundi. Samningarnir hljóða upp á 22% lækkun lágmarkslauna, skattahækkanir og umtalsverðan niðurskurð á ríkisútgjöldum. Þegar grískir ráðamenn lögðu þá fyrir fjármálaráðherra evrusvæðisins í gær voru menn hins vegar á því að sneiða þarf meira af grískum ríkisútgjöldum, jafnvel 325 milljónir evra, en núverandi samningar hljóða upp á eigi stjórnvöld að geta staðið undir skuldbindingum sínum.

Samningarnir fóru ekki vel í verkalýðsfélög á Grikklandi og var samstundis boðað til verkfalla. Starfsfólk strætisvagna og annarra almenningssamganga auk hafnarverkamanna lögðu niður störf. Læknar, kennarar og bankastarfsmenn hafa jafnframt bæst í hópinn í dag.