Grikkir hafa náð bráðabirgðasamkomulagi við lánardrottna sína að sögn fjármálaráðherra Grikklands. Þetta kemur fram í frétt AFP fréttaveitunnar um málið.

„Viðræðunum er lokið,“ sagði Euclid Tsakalotos, fjármálaráðherra Grikklands við blaðamenn. Viðræðurnar stóðu yfir í nótt og að sögn fjármálaráðherra að Grikkir hefðu náð tæknilegu bráðabirgðasamkomulagi við lánardrottna sína. Þann 22. maí næstkomandi verður fundur fjármálaráðherra evrusvæðisins, en þeir verða að samþykkja samkomulagið til þess að það öðlist gildi.

Tsakalotos bætti við að samkvæmt samkomulaginu þá gætu Grikkir hafið skuldaaðlögunaraðgerðir gagnvart lánardrottnum sínum, og að gríska efnahagslífið geti í kjölfarið blómstrað á ný. Gríska þingið verður einnig að samþykkja samkomulagið um miðjan mái.

Að sögn heimildarmanna ríkismiðilsins ANA verður talsverður niðurskurður í lífeyri Grikkja, eða um 9%. Talsverður þrýstingur hefur verið á Grikkja að skera niður í ríkisfjármálum, en vegna þrýstings frá helstu lánardrottnum, þ.e. ESB, Seðlabanka Evrópu og AGS, samþykktu Grikkir nýverið að draga enn fremur úr útgjöldum ríkisins eða um 3,6 milljarða evra á árunum 2019 og 2020.