Grikkir eru sagðir vera að búa sig undir greiðslufall í lok mánaðar, samkvæmt Business Insider . Landið hefur átt í miklum fjárhagslegum erfiðleikum undanfarið og þarf nauðsynlega að fá aukið fjármagn frá lánardrottnum sínum, en hins vegar hafa samningaviðræðum um það ekki enn borið árangur.

Ef að landið fær ekki næsta skammt af neyðarlánum, sem nemur 7,2 milljörðum evra, fyrir Eurogroup fundinn, 24. apríl næstkomandi, verður greiðslufall mun líklegra. En talið er líklegt að ríkisstjórnin sé að búa sig undir það versta.

Financial Times greinir frá því í dag að ef ekki náist að semja við Evrópusambandið, Seðlabanka Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn fyrir lok apríl verði greiðslufalli ríkisins lýst yfir. En ríkisstjórnin hefur ákveðið að greiða þá ekki 2,5 milljarða evra endurgreiðslur til AGS í maí og júní, ef til þessa kemur.  En ríkisstjórnin er að verða uppiskroppa með fé til að borga opinberum starfsmönnum laun og lífeyri.

Viðræður um áframhaldandi aðstoð ESB og AGS við Grikki eru hafnar á ný, en þær hafa ekki verið mjög árangursríkar hingað til. Sú aðstoð sem nú er samið um er eingöngu tímabundin og átti að brúa fjögurra mánaða bil. Því getur sama staða komið upp aftur innan skamms.