Gríska ríkinu tókst í gær að selja ríkisvíxla fyrir tæpar 940 milljónir evra og hefur því tekist að afla þeirra fimm milljarða evra sem greiða þarf lánadrottnum ríkisins í dag. Alls bárust tilboð í 13 vikna víxla fyrir 300 milljónir evra og fyrir 637,5 milljónir í fjögurra vikna víxla. Þessi fjárhæð kemur til viðbótar þeim 4,06 milljörðum evra sem ríkinu tókst að afla með verðbréfasölu fyrr í vikunni.

Í dag eru þrettán vikna víxlar á gjalddaga fyrir alls fimm milljarða evra, en ríkið seldi þá á sínum tíma til að mæta kostnaði við endurkaup á eigin bréfum frá evrópska seðlabankanum.

Embættismenn ESB hafa kallað eftir sérstökum fundi fjármálaráðherra aðildarríkjanna þann 20. nóvember næstkomandi til að taka endanlega ákvörðun um að veita Grikkjum næsta lánaskammt að fjárhæð 31,5 milljarðar evra. Þetta fé hefur setið frosið frá því í júní síðastliðnum eftir að gríska ríkisstjórnin reyndi að fá breytt skilyrðum um aðhald í ríkisfjármálum.