Gríska þingið hefur samþykkt að skera niður um 12,7% af öllum opinberum útgjöldum á næsta ári. Þetta kemur til viðbóta rúmlega 9% niðurskurði á þessu ári, að því er breska ríkisútvarpið BBC greinir frá í dag.

Skuldastaða Grikklands er mjög alvarleg, en skuldir ríkisins eru nú um 300 milljarðar evra eða sem nemur 54.000 milljörðum króna.

Eigendur grískra ríkisskuldabréfa, þ.á.m. fagfjárfestar eins og norski olíusjóðurinn, hafa verið uggandi yfir þróun mála í Grikklandi síðan kreppan dýpkaði til muna á haustmánuðum í fyrra. Illa hefur gengið að sannfæra fjárfesta um að Grikkland geti staðið við skuldbindingar. George Papandreou, forsætisráðherra Grikkland, segir að enginn þurfi að efast um getu landsins til að takast á við skuldavandann. "Við munum breyta þessu landi og höfum nú sýnt að okkur er alvara um að takast á við erfiðleikana," sagði Papandreou eftir að niðurskurðurinn hafði verið kynntur.